Blog #6 - Week 12

Blogg #3 - Vika 12

Heil og sæl.

Nú sit ég hér í húsinu sem ég leigði í Aljezur og horfi á rokið leika við trén. Sérstaklega eitt tré sem er beint fyrir utan sólstofuna, þakið í eldrauðum hangandi blómum sem flæða eins og dans með vindinum.
Ég er nánast aldrei einn. Allavega ekki svona lengi. Ég sendi alla með út í búð svo ég gæti fengið þessa einveru stund. Eins og ég nýt þess að vera einn með sjálfum mér þá er ég alls ekki að kvarta. Er svo heppinn að vera umkringdur af yndislegu fólki sem hugsar vel um mig. Það var ekki alltaf þannig. Þegar ég veikist þá var NPA (Notendastýrð Persónuleg Aðstoð)ekki komið til sögunnar. Tilvera mín var heldur fátækleg og þjáningarfull í þá dagana. Ég var í rúmminu hema eða á spítalanum, með lítið val i hvað ég gerði annað en að vafra um netið eða stara á vegg, sársaukinn sem fylgdi því að geta ekkert hreyft mig tímum saman byggðist upp og var óumflýjanlegur hluti af tilverunni sem ég lærði að sætta mig við. Þannig var það í næstum áratug. Án mömmu hefði ég aldrei komist í gegnum þetta, hún gerði þessa miklu píslagöngu bærilega með óbilandi umhyggju og krafti.
En svo, fyrir tilstilli réttindabaráttu nokkurra réttinda hetja eins og Rúnar Björn og Freyju Haralds og fleirri þá var NPA sett í lög og nú er ég frjálsari en fuglinn og þarf ekki að þola þjáningu nema þá sem ég kalla sjálfur yfir mig með æfingum og ævintýrum og eins og eðlilegt er við að lifa og elska.

Ég ætlaði að halda áfram að segja ykkur frá þessum miklu sviptingum tilveru minnar, en meðan ég var að skrifa þá hringdi Rahul til að spyrja hvort ég vildi vera með í að hjálpa 11 ára barni í Kathmandu að komast í skurðaðgerð til að skera burt heilaæxli sem ógnar lífi þess.

Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Rahul kær vinur minn sem kallar mig bróður. Við erum búnir að fara i gegnum mikil ævintýri saman og ferðast víða um heim. Rahul er einn af þessum góðu sem leggur líf sitt og tilveru í að hjálpa öðrum. En ekki út af eitthverri samvisku heldur bara afþví að það veitir honum gleði. Ég tengi við það. Yfirleitt segi ég ekki frá þegar ég tek þátt í svona góðverkum en fyrst þetta gerðist meðan ég er að skrifa þá hafið þið það.

Svo veit maður aldrei. Kannski fer aðgerðin ekki vel og þetta reynist því bjarnargreiði. Það væri leiðinleg. En það breytir því ekki að ásetningur minn er að gera gott og treysta að sú orka skili sér í kærleika til þessa barns sem kemur með þessari tilviljunarkenndu leið til mín.

Á svo eftir segja ykkur frá nokkrum spennandi verkefnum sem eru að fara í gang. En núna ætla ég að hugleiða og horfa á tréið dansa.

Takk þið öll fyrir að deila þessu kosmiska mómenti með mér.
Kærleikur og ást.
Þangað til næst.

Aftur á bloggið